Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins sem eitt sinn var dómsmálaráðherra, skrifar í Fréttablaðið og fjallar um lekamálið. Í lok pistilsins ræðir Þorsteinn um „huldumanninn“ í ráðuneytinu, þann sem lak hinu umtalaða minnisblaði í fjölmiðla. Þorsteinn segir að þarna sé hinn raunverulegi „ógnvaldur“ sem „sveifli sverði yfir höfði ráðherrans“.
Hafi lögreglurannsóknin ekki leitt í ljós hver bar ábyrgð á því að skjalið umtalaða komst út úr ráðuneytinu þannig að hafið sé yfir allan vafa getur ríkissaksóknari ekki aðhafst. En málið er aftur á móti þannig vaxið að héðan af getur ráðherrann ekki sætt sig við að það sofni þannig án nokkurrar niðurstöðu.
Megi ganga út frá því sem vísu að öryggisreglur innanríkisráðuneytisins séu í lagi hefur skjalið varla komist til vandalausra án atbeina starfsmanns þess. Einhver hefur komið skjalinu út úr ráðuneytinu og til vitundar aðila sem ekki er bundinn af opinberum reglum um þagnarskyldu.
Hver sem þetta er þá er það svo að hann einn býr yfir þeirri vitneskju sem leyst getur ráðherrann úr klípunni. Þessi huldumaður er hinn raunverulegi ógnvaldur sem sveiflar sverðinu yfir höfði ráðherrans og sýnist gersamlega kæra sig kollóttan um pólitísk örlög hans.
Síðan segir Þorsteinn að Hanna Birna Kristjánsdóttir þurfi á því að halda að málið verði upplýst:
Ráðherrann þarf einfaldlega að geta hreinsað alla starfsmenn ráðuneytisins eða dregið einhvern þeirra til ábyrgðar. Takist það ekki gæti þrengst um varnir hans sjálfs.
Um greinina hafa þegar spunnist nokkrar umræður á Facebook, til dæmis skrifar Benedikt Jóhannesson:
Svo verður líka að spyrja sig um siðferði þess starfsmanns sem lak skjalinu úr ráðuneytinu (því ekki hefur það lekið sjálft). Meðan sá starfsmaður þegir eru allir starfsmenn undir grun og ráðherrann stöðugt í vanda. Hann er auðvitað sökudólgurinn, en hvorki einhverjir embættismenn né blaðamenn eins og nú virðist vera línan.