Margt bendir til að Hanna Birna Kristjánsdóttir muni reyna að sitja svo fremi sem hennar fólk – þ.e. þeir sem geta talist stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins – styðja hana. Það skiptir hana kannski ekki svo miklu máli hvað fólk í öðrum pólitískum herbúðum segir. Píratar leggja fram vantraust á hana og vilja að það sé tekið fyrir á fyrstu dögum þings – það gæti verið að þetta yrði til að styrkja Hönnu Birnu, að stjórnarþingmenn sæju sig nauðbeygða til að greiða atkvæði með henni, sumir jafnvel ekki af sérlega fúsum vilja.
Þó kunna að vera komnir ákveðnir brestir í þetta. Lekinn sjálfur og allt það mál hefur ekki valdið sérstökum óróa innan Sjálfstæðisflokksins né stjórnarliðsins. Öðru máli gegnir þegar uppvíst verður að ráðherra hefur verið að tuddast í lögreglunni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf lagt upp úr því að vera flokkur laga og reglu – mjög hliðhollur lögreglu.
Þarna sér maður að brestir eru farnir að myndast. Til dæmis birtist á mbl.is í gærkvöldi viðtal við Stefaníu Óskarsdóttur stjórnmálafræðing. Hún tók á árum áður þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins og var í framboði fyrir hann.
Í niðurlagi fréttarinnar segir:
„Hún segir sig frá dómsmálum fullseint þar sem rannsókn málsins er lokið og það komið til dómstóla,“ segir Stefanía, en hún telur Hönnu Birnu hafa átt að segja af sér þegar ákæra á hendur aðstoðarmanni hennar kom á borðið. „Það er ekki endilega viðurkenning á sök, heldur bara til þess að skapa frið um þetta ráðuneyti og ekki ganga lengra í því að grafa undan trúverðugleika lögreglunnar og dómskerfisins sem mér finnst hún svolítið vera að gera,“ segir hún.
Stefanía segir Hönnu Birnu hafa gefið það í skyn að það sé mikið að því hvernig lögreglan, ríkissaksóknari og umboðsmaður Alþingis starfa. „Mér finnst þetta orðið dálítið alvarlegt þegar innanríkisráðherra er farin að ganga svo langt að hún segist ekki treysta lögreglunni, ríkissaksóknara og umboðsmanni. Hvað með almenning í landinu, eigum við að treysta þessu liði?“