Hann er merkilegur leiðarinn sem Ólafur Þ. Stephensen ritstjóri skrifar í Fréttablaðið í dag. Leiðarinn fjallar um ritstjórnarlegt sjálfstæði. Þetta er skrifað daginn sem Mikael Torfason er rekinn og Kristín Þorsteinsdóttir, sem hefur séð um alls kyns kynningarmál og almannatengsl fyrir Jón Ásgeir Jóhannesson og setið í stjórnum á hans vegum, er ráðin sem aðalritstjóri á 365 miðlum.
Ólafur skrifar í niðurlagi leiðarans, þarna eru hlutir ekki sagðir berum orðum, ýmislegt er gefið í skyn. En þarna er semsagt greint frá þremur aðferðum við að grafa undan ritstjórnarlegu sjálfstæði:
Það eru ýmsar aðferðir til að hola hið ritstjórnarlega sjálfstæði að innan. Ein getur verið að gera sífelldar athugasemdir við fréttaflutning sem tengist eigendunum og vona að það síist inn hjá stjórnendum ritstjórnarinnar að það sé betra að sleppa slíkri umfjöllun en að styggja eigendurna. Önnur getur verið að gera ekki beinar athugasemdir við umfjöllun sem snýr að eigendunum, heldur skrúfa upp þrýstinginn vegna annarra mála sem snúa að ritstjórninni þannig að stjórnendurnir skilji samhengið. Það getur þurft sterk bein til að þola slíkan þrýsting. Sú þriðja getur svo verið að ráða til stjórnunarstarfa á ritstjórnum fólk sem er nægilega náið og handgengið eigendunum til að láta prinsipp um ritstjórnarlegt sjálfstæði ekki þvælast fyrir sér.
Í þessu efni eins og svo mörgum öðrum á það nefnilega við að sá veldur sem á heldur. Eigandi sem vill hafa áhrif á ritstjórn fjölmiðils þarf hvorki að láta lagabókstaf né siðareglur stöðva sig. Þetta á við hvaða fjölmiðill sem á í hlut, ríkis- eða einkarekinn.
Einhvern veginn ímyndar maður sér að þetta sé lokakveðja Ólafs til Fréttablaðsins og 365. Eins og vís maður segir á Facebook: Leiðir hlýtur að skilja.