Það er gott að sýna ráðdeild í ríkisrekstri.
En það er ekki víst að þeir sem mæla mest fyrir henni slái alltaf rétta tóninn.
Digurbarkalegar yfirlýsingar þingmanna gagnvart ríkisforstjórum síðustu daga hafa holan hljóm – það er almælt.
Því almenningur hefur enn á tilfinningunni að heilbrigðiskerfið sé í fjársvelti.
Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, ræddi þetta í viðtali við RÚV og var satt að segja býsna sannfærandi.
Brynhildur segir að þegar fjárlagafrumvarpið var rætt á sínum tíma hafi hún bent á að ónógt fé væri ætlað til sjúkratrygginga:
„Ef að ég, nýgræðingur í pólítík, gat sett það inn í nefndarálitið að þá væri ekki fræðilegur möguleiki að sjúkratryggingar gætu verið innan fjárlaga, þá gátu allir séð það. Án þess að ég sé að gera lítið úr sjálfri mér. Þetta lá alveg ljóst fyrir og á ekki að koma neinum á óvart.“
Og Brynhildur sagði ennfremur:
„En ástæðurnar fyrir hallarekstrinum eru mjög mismundandi. Mér finnst heldur ekki að við fjárlagagerðina sé hægt að setja alla ábyrgðina á forstjóra ríkisstofnanna sem eiga að sinna ákveðinni þjónustu en hafa ekki peninga til þess að sinna henni.“