Það hefði eins verið hægt að setja Pelé inn á völlinn í kvöld. Brasilíska liðið hefði ekki spilað verr með hann sjötugan inni á. Þetta er einhver furðulegasti fótboltaleikur sem ég hef séð. Fólk hér í Grikklandi stóð með gapandi munn og horfði á. Maður vissi ekki hvort maður ætti að flissa að Brasilíumönnunum eða vorkenna þeim.
Það er sérkennilegt að sjá lið skipað þrautþjálfuðum atvinnumönnum missa algjörlega fótanna í leik. Það gerist í raun afar sjaldan. Miklu lakari lið en Brasilía, að minnsta kosti á pappírnum, töpuðu ekki nema með einu marki áður en þau fóru út úr keppninni.
Nú les maður að þetta séu einhvers konar tímamót – að sambaboltanum sé lokið.
En hann er löngu búinn. Samban þreifst þegar brasilískir fótboltamenn spiluðu heima hjá sér og hefðu þess vegna getað stillt upp mörgum liðum á heimsmeistaramóti. Nú eru þetta atvinnumenn sem spila í Evrópu, með stóru félagsliðunum þar. Leikstíll þeirra er ekki eins og í gamla daga þegar lið Brasilíu leyfðu ekki öðrum liðum að snerta boltann – spiluðu honum bara látlaust milli sín.
En nú var það frekar eins og Þjóðverjar leyfðu ekki Brasilíumönnum að koma við boltann – þeir gátu allavega tekið hann af þeim hvenær sem þeir vildu.
Eftir þetta situr hnípin þjóð í Brasilíu og tekur þetta mjög nærri sér –meir en aðrar þjóðir myndu gera. Fótbolti er jú mikið tilfinningamál í Brasilíu – og það eru Brasilíumenn sem halda mótið. Kannski höfðu þeir rétt fyrir sér sem sögðu að frekar hefði átt að eyða peningunum í spítala og skóla.
Sé miðað við hversu mikið Brasilíumenn leggja í fótboltann, hefði Þjóðverjum í raun verið skítsama þótt þeir töpuðu leiknum.
Næstu heimsmeistaramót verða haldin í Rússlandi og Katar. Það vekur ekki beint áhuga – byggist það ekki fremur öðru á mútufé sem streymir til meðlima alþjóðlega knattspyrnusambandsins?
Þjóðverjar hljóta að teljast líklegir heimsmeistarar. Lið þeirra spilar óaðfinnanlega, er sterkt á öllum stöðum á vellinum. Þetta er líka skemmtilega fjölþjóðlegt lið hjá Þjóðverjunum – þarna eru leikmenn sem hafa flutt til Þýskalands frá ýmsum löndum eða foreldrar þeirra. Einhvern veginn finnur maður að þelið í garð Þjóðverja er allt annað en á árunum þegar Breitner og Beckenbauer fóru fyrir liði þeirra.