Það eru talsverð tíðindi að Björt framtíð skuli mynda meirihluta með Sjálfstæðisflokknum í Kópavogi og Hafnarfirði – næst stærsta og þriðja stærsta bæ landsins – og ætla að starfa með meirihlutanum á Akranesi.
Þarna er semsagt kominn miðjuflokkur sem er reiðubúinn að vinna með Sjálfstæðisflokknum þegar þannig ber undir – en líka til vinstri ef hentar.
Minnig þannig á Framsóknarflokkinn á velmektarárum sínum. Hann var sagður opinn í báða enda.
En nú er athyglisvert að Sjálfstæðisflokkurinn velur Bjarta framtíð fram yfir Framsóknarflokkinn. Í því felast sterk skilaboð. Sjálfstæðisflokkurinn hefur víðast hvar ekki átt að aðra flokka til að starfa með, en Björt framtíð þykir greinilega meira aðlaðandi.
Þetta endurspeglar útbreidda óánægju sem er innan Sjálfstæðisflokksins með stjórnarsamsamstarf þar sem Sjálfstæðisflokkurinn þarf að vera í forsvari fyrir mál sem hann trúir ekki á og þar sem Framsóknarflokkurinn hefur forsætisráðuneytið þrátt fyrir að vera miklu minni flokkur.