Stórkostlegasta bylting sem hefur orðið í Reykjavík er trjágróðurinn.
Hér voru engin tré og það var talið útilokað að stunda trjárækt.
Svo fóru menn að prófa, og viti menn, sumar trjátegundir döfnuðu vel. Og nú er borgin umvafin trjágróðri sem hefur bætt bæði veðurfarið og líðan borgaranna.
Einhvern tíma hef ég sagt söguna af ömmu minni sem var norsk. Hún kom í fyrsta skipti til Íslands 1928.
Þá voru eiginlega engin tré í bænum.
Mér er sagt að amma, sem gjarnan var kölluð Frú Herborg, hafi stundum farið upp á Grettisgötu þar sem var myndarlegt tré.
Mér þykir ólíklegt að hún hafi faðmað það, hún var ekki þannig, eða jú – kannski hefur hún faðmað tréð í huganum.
Einhvern veginn grunar mig að þetta hafi verið silfurreynirinn sem nú stendur til að fella á Grettisgötu og er sagður vera 108 ára gamall.
Fólk safnaðist saman í dag og mótmælti því að gamla tréð við Grettisgötu yrði fellt til að rýma fyrir hótelbyggingu.