Það er athyglisvert að sjá hvað Björt framtíð er að gera í Hafnarfirði.
Hún vill að í staðinn hefðbundinna meirihlutaviðræðna í bæjarstjórninni ræði allir flokkar saman.
Í sveitarstjórnarlögum stendur ekkert um að mynda skuli meirihluta í bæjarstjórnum, heldur er þetta siður sem er orðinn algjörlega rótgróinn.
Það er í raun ekkert því til fyrirstöðu að allir flokkar og bæjarfulltrúar starfi saman að heill bæjarfélagsins – í staðinn fyrir að leggjast í flokkspólitískan garra og útilokun.
Guðlaug Kristjánsdóttir, sem skipar fyrsta sætið hjá BF, segir á Vísi:
Við vorum aldrei tilbúin að mynda hefðbundinn meirihluta og taka einhverja U-beygju. Þetta kom hinum flokkunum vissulega á óvart. Í ellefu manna bæjarstjórn eru margir með mismunandi bakgrunn og kemur úr allskonar rekstri. Við viljum nýta krafta allra.
Þetta virðist koma dálítið flatt upp á bæjarfulltrúa hinna flokkanna í Hafnarfirði, en úrslit kosninganna voru þannig að erfitt er að mynda meirhluta án Bjartrar framtíðar. Hún er í oddaaðstöðu.
Ef Björt framtíð er ekki með eru ekki aðrir meirihlutar í kortunum en Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar eða Vinstri grænna.
Guðlaug Kristjánsdóttir, oddviti Bjartrar framtíðar í Hafnarfirði.