Við verðum að fara varlega með svæðið í kringum Reykjavíkurhöfn. Hófleg uppbygging er í lagi – og sums staðar eru göt sem þarf að fylla upp í, stór og eyðileg bílastæði, ljótar skemmur. Austurhöfnin auð og ósjarmerandi og það eru reitir í Miðhöfninni þar sem mætti vel byggja. En uppbyggingin verður að taka mið af því sem er fyrir, bæði hvað varðar stærð og arkitektúr.
Það er ekki góð hugmynd að byggja stór ný hverfi sem gerbreyta ásýnd hafnarsvæðisins. Það á að fá að þróast á lífrænan hátt – stórfelld uppbyggingaráform eiga ekki heima þarna.
Ekki heldur þótt sé byggingabóla á Íslandi og lífeyrissjóðir og fjárfestar vilji koma fjármunum sínum í steypu.
Hér eru til dæmis tvær myndir sem vekja ugg. Svona myndir geta reyndar blekkt, þær eru aðallega gerðar til að sýna byggingamagn. En hvað sem því líður er þetta ekki gott. Virkar afar gelt.
Þetta er úr rammaskipulagi fyrir gömlu höfnina í Reykjavík og má finna á þessari vefsíðu.
Leiðréttið mig ef menn hafa haft vit á því að hverfa frá svona stórfelldum áformum síðan þessar myndir voru gerðar.