Heimur vegfarandans er afskaplega persónubundinn – súbjektívur eins og sagt er. Þetta veltur allt á sjónarhorninu.
Sá sem situr í bíl lætur hjólreiðafólk og gangandi vegfarendur fara í taugarnar á sér. Maður hefur síendurtekið heyrt frasann að þrengt sé að einkabílnum.
Hjólreiðamenn og gangandi vegfarendur upplifa það ekki þannig –en sjónarhornið kann að breytast þegar þeir setjast upp í bíl. Þegar þeir fara um bæinn sjá þeir ekki að sérlega mikið hafi verið gert til að skerða hlut einkabílsins, það er eiginlega þvert á móti. Alls staðar eru umferðargötur og bílastæði sem þarf að komast yfir.
En milli hjólreiðamanna og gangandi vegfarenda ríkir ekki friður, nema síður sé.
Margir hjólreiðamenn hjóla núorðið mjög hratt, næstum á hraða bifreiða. Þeim er mjög illa við allar hindranir, sem birtast einkum í líki gangandi vegfarenda – jú, og bíla.
Af þessum sökum eru margir hjólreiðamenn fullir af ergelsi – þeim finnst þeir vera að hjóla gegn fjandsamlegum heimi. Því skyldi maður vara sig á því að láta ekki hjóla sig niður – og því er um að gera að bæta aðstöðu hjólreiðamanna.
Því ef eitthvað vit væri í okkur ættum við öll að vera komin á hjól, þó ekki væri nema umhverfisins vegna.