Það er athyglisvert að lesa að moska hafi alltaf átt að vera kosningamál hjá Framsóknarflokknum. Þetta segir Guðrún Bryndís Karlsdóttir, sem um tíma var í öðru sæti á lista flokksins í grein í Kvennablaðinu.
Guðrún segir að hún hafi mætt útilokun þegar hún sýndi moskutalinu lítinn áhuga.
Nú lýsir Samband ungra Framsóknarmanna yfir fullkomnu vantrausti á oddvita flokksins í Reykjavík.
En þeir eru til sem hrífast af kosningabaráttu Framsóknarmanna.
Meðal þeirra er Björn Bjarnason sem kallar hana the real thing, ólíkt kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, áréttar frjálslyndisstefnu í grein sem hún skrifaði í Fréttablaðið í gær undir yfirskriftinni Heimsborg er frjálslynd borg. Hún skrifar:
Við eigum að fagna fjölbreytninni og virða frelsi fólks til orðs og æðis og að iðka trú sína og siði, svo fremi að ekki sé gengið á rétt annarra. Við eigum að hjálpa innflytjendum að aðlagast og læra tungumálið, en líka að viðhalda færni í eigin móðurmáli. Við eigum að flykkjast í gleðigöngu og sýna stuðning við ást jafnt gagnkynhneigðra og samkynhneigðra. Við eigum að taka vel á móti flóttamönnum og hælisleitendum, sem vilja gera Reykjavík að sinni nýju heimaborg. Reykjavík er full af áberandi kirkjum sem bera okkar kristna arfi fallegt vitni. Við eigum að fagna því að eignast tilbeiðsluhús fleiri trúarbragða, sem sýna að hér er trúfrelsið í hávegum haft og allir jafnréttháir.
Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur frjálslyndis og einstaklingsfrelsis. Á þeim grunni er best að stýra borg sem ætlar að vera heimsborg; fjölbreytt, víðsýn, frjáls og opin.
Líklegt er að átökin innan Sjálfstæðisflokksins magnist ef hann bíður afhroð í Reykjavík eins og flest bendir til. Framsókn er í uppsveiflu vegna moskumálsins og tekur greinilega frá Sjálfstæðisflokknum. Gunnar Smári Egilsson greinir þetta svo á Facebook:
Sjálfstæðisflokkurinn varð til við sameiningu Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins 1929. Við hernám Breta gengu síðan félagar Flokks þjóðernissinna inn í Sjálfstæðisflokkinn. Sem breiðfylking þessara flokka varð Sjálfstæðisflokkurinn miðja íslenskra stjórnmála frá seinna stríði og fram að Hruni; hann reyndi að vera frjálslyndur þjóðernissinnaður íhaldsflokkur. Vegna átakanna eftir Hrun brast samstaðan um þessa samsuðu; hverjum hópi þótti hún ekki nógu öflug fyrir sinn smekk. Frjálslyndir stofnuðu Viðreisn og Flokkur þjóðernissinna gekk inn í Framsóknarflokkinn, sem líka hafði tapað sögulegum áttum við Hrunið. Það skrítna er að síðustu forystumenn sameinaðs Sjálfstæðisflokks hvetja til upplausnar hans; Davíð Oddsson og Björn Bjarnason. Þeir fagna flótta frjálslyndra í Viðreisn og virðast helst vilja fylgja þjóðernissinnunum yfir í Framsókn.