Kona sem ég þekki fékk bréf frá Arion banka. Þar var sagt að þjónusta bankans stefndi nú í að verða ennþá betri.
Þetta felst í því að loka útibúi bankans í Austurstræti, það er bætt þjónusta. Og reyndar verður líka lokað við Hlemm.
Útibúið í Austurstræti er í hinu gamla húsi Búnaðarbankans. Bankinn starfaði þar frá 1937. Þar er meðal annars að finna mjög fallega veggmynd eftir Jón Engilberts.
Íslandsbanki virðist ætla að gera það sama, því nú hefur hús hans í Lækjargötu verið auglýst til sölu. Útibúinu þar verður lokað og húsið selt.
Maður veltir fyrir sér hvað verður um þessi hús sem standa á besta stað í Miðbænum og segir bara eitt – plís ekki hótel! Plís ekki lundabúð eða veitingastaður!
Nú stefnir í að Landsbankinn verði einn eftir með útibú í Miðbænum, allt frá Borgartúni vestur á Mela og þá hlýtur maður að spyrja – þurfa allir túristarnir sem hingað koma enga bankaþjónustu?
Það er þakkarvert að Landsbankinn skuli áfram ætla að starfa í miðborginni. Hann hyggst reyndar byggja nýjar aðalstöðvar. Nútímalegt er ekki alltaf betra. Landsbankinn breytti útibúi sínu í Háskólabíói í stöð þar sem eru engir starfsmenn, einungis tölvur. Það hefur ekki slegið í gegn.