Það eru nokkrir hlutir á Íslandi sem ég hef getað montað mig af við útlendinga.
Ég er ekki að tala um náttúruna, bókmenntirnar eða blómlegt menningarlíf.
Heldur að við erum um það bil friðsamasta þjóð í heimi, höfum engan her. Við getum líka verið umburðarlynd og frjálslynd eins og sést til dæmis á hinni árlegu gleðigöngu samkynhneigðra.
Og svo hef ég glaður í bagði geta sagt útlendingum frá því að hér hafi ekki náð að festa rætur stjórnmálaflokkar sem gera út á andúð gagnvart innflytjendum og útlendingum.
Það finnst fólki gott að heyra. Við höfum allar forsendur til að leysa þau vandamál sem kunna að koma upp vegna innflytjenda með mildi og skilningi.
Ég óttast að þetta sé að breytast. Ég segi eins og er, mér er alvarlega misboðið vegna framgöngu sumra Framsóknarmanna fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Að ætla að koma fulltrúa inn í borgarstjórnina á forsendum innflytjendandúðar er ekki boðlegt.
Um leið og þetta gerðist opnuðust gáttir – það var fyrirsjáanlegt og einna alvarlegast. Þarna finna hatursöfl eitthvað til að fylkja sér um. Það er eins og hafi verið skotið upp fána.
Gamall félagi minn úr Vesturbænum, fjölmiðlamaðurinn Sigurður Þór Salvarsson, skrifar á Facebook að þarna sé „uppspretta óvinafagnaðar“. Það eru orð að sönnu.
Mesti skaðinn sem hlotist hefur af þessu örvæntingarfulla moskuupphlaupi Framsóknarmanna í Reykjavík, er sá að með því hafa þeir gefið talsmönnum trúarofstækis og mannfyrirlitningar rödd og tækifæri til að ausa úr sér óþverranum. Og svo er komið að manni óar beinlínis við að lesa sumt af því sem fólk lætur frá sér fara um þessi mál á samfélagsmiðlum. Þannig hefur þessi svokallaða „umræða“ einsog Framsóknarmenn kjósa að kalla þetta, einungis verið uppspretta óvinafagnaðar, sem skilar okkur engu nema sundurlyndi og leiðindum.
Mér hefur alltaf verið frekar hlýtt til Framsóknarflokksins. Ungur var ég blaðamaður á Tímanum, málgagni hans. Þá var Þórarinn Þórarinsson ritstjóri en Halldór Ásgrímsson formaður blaðstjórnar. Margir sem búa á mölinni held ég að eigi erfitt með að skilja hvílíkt þjóðfélagsafl Framsókn er víða úti á landi. Í sögunni hefur flokkurinn hallast að frjálslyndi, umburðarlyndi og öfgaleysi. Ég kom flokknum meira að segja til varnar þegar stjórnmálafræðingur bar upp á hann þjóðernispópúlisma fyrir fáum árum.
Með það í huga ætla ég að biðja vini mína í Framsóknarflokknum lengstra orða að fara ekki út á þessa braut og losa sig við þessa óværu eins fljótt og auðið er. Vilja Framsóknarmenn í alvörunni sitja uppi með að hafa náð inn fulltrúa í borgarstjórn í Reykjavík á þessum forsendum?