Hér er ljósmynd af Lækjartorgi á stríðsárunum. Hún birtist á Facebooksíðu sem nefnist Gamlar ljósmyndir og er merkt tímaritinu Life.
Það er margt merkilegt að sjá þarna. Þetta er greinilega um vetur. Það er snjór í Esjunni. Hún er eins og við þekkjum hana, annars er flest breytt.
Við sjáum greinilega kolareykinn í loftinu. Strókurinn stendur beint upp úr strompinum á Sænska frystihúsinu.
Og þarna eru hús þar sem nú er bara bílagata og bílastæði. Við enda Lækjargötunnar var nefnilega byggð sem hvarf ekki fyrr en á sjötta og áttunda áratugnum.
Þarna var þyrping af timburhúsum – og í þeim alls konar verslanir.
Hugmyndir um að byggja þarna mjög þétta byggð stórhýsa vekja óhug – þær er varla hægt að túlka sem annað en sjúkleikamerki fasteignabólunnar sem nú stendur yfir. Það eru plön sem verður að vinda ofan af, hvað sem líður fjárfestingarþörf lífeyrissjóða.