Það er merkilegt hvernig öll umræðan fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík hefur snúist um flokk sem virðist ætla að fá innan við fimm prósenta fylgi.
Þetta hlýtur að vera næsta einstætt.
Á árum áður snerust borgarstjórnarkosningarnar um yfirráð Sjálfstæðisflokks eða vinstri manna yfir borginni. Svo er ekki lengur.
Það heyrist varla í stóru flokkunum í borginni fyrir hamagangnum í kringum Framsókn.
Fyrst voru það framboðsmálin og Guðni, svo atburðarásin þegar komið var á framboði með „flugvallarvinum“ og nú yfirlýsingar frambjóðenda um moskubyggingu í Reykjavík.
Frambjóðandi númer tvö á lista Framsóknar, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, stígur fram, og tekur í meginatriðum undir málflutning Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttir.
Hún segir að sé ekki forsvaranlegt að veitt hafi verið lóð undir mosku meðan húsnæðisekla er í borginni.
Guðfinna bætir við að þau séu ekki „rasistar“. En á eftir kemur hún með svo sígilda viðkvæði, sem mátti meðal annars sjá í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í síðustu viku, að fólk þori ekki að ræða „þessa hluti“.
Nú væri forvitnilegt að vita að hve miklu leyti þetta er skipulagt hjá Framsóknarflokknum í Reykjavík eða hvort „þessir hlutir“ eru bara að detta óvænt upp úr frambjóðendum á síðustu dögunum fyrir kosningar.
En það geta líka verið skoplegar hliðar á kosningabaráttunni, því nú hefur Vigdís Hauksdóttir komist að þeirri niðurstöðu að sé „undirliggjandi rottufaraldur“ í Reykjavík eftir að tveir drengir sigruðust á rottu vestur á Melum fyrr í vikunni. Má skilja á Vigdísi að þetta sé borgarstjórninni að kenna.
Sjálfum datt mér ekki í hug að kenna henni um þegar rottan kom inn til mín í fyrra. En auðvitað hefði ég átt að skamma Jón Gnarr.
En það eru ýmsar skemmtilegar – og miður skemmtilegar – rottusögur. Hér er til dæmis frétt frá 1997 þar sem segir frá rottu sem var að synda meðal gesta í Laugardalslauginni.
— — —
Annars er mönnum í lófa lagið að stöðva ókeypis útdeilingu lóða til trúfélaga – og mun þá eitt yfir alla ganga. Eins og ég skrifaði hér á vefinn í fyrradag er skylt samkvæmt lögum að leggja kirkjum til ókeypis lóðir og undanskilja þær gatnagerðargjaldi. Sá skilningur hefur ríkt hin síðari ár að sökum þess að á Íslandi er bannað að mismuna vegna trúarbragða, það stendur í stjórnarskránni 65. grein, gildi þetta sama um önnur trúfélög. Á þessum grunni hafa ásatrúarmenn, búddistar, rússneska rétttrúnaðarkirkjan og múslimar fengið úthlutað lóðum í Reykjavík.
Meðal þeirra sem hafa hvatt til þess að lögum þessum verði breytt er borgarstjórnin í Reykjavík. Hún fór fram á það í fyrrahaust að lögum yrði breytt, enda væri það tímaskekkja að trúfélög fengju ókeypis lóðir. Sagði í bókun borgarstjórnar:
Lögin voru sett á tíma þegar trúarlíf þjóðarinnar var almennara og einsleitara og meiri sátt ríkti um þátttöku opinberra aðila í rekstri trúfélaga. Á þeim tíma mátti færa fyrir því rök að eðlilegt væri að Reykjavíkurborg léti frá sér án endurgjalds lóðir undir kirkjur. Það er tímaskekkja að skylda sveitarfélög einhliða til að ráðstafa dýrmætu borgarlandi án endurgjalds til þeirra trúfélaga sem sækjast eftir því. Reykjavíkurborg styður eftir sem áður fjölbreytt trúarlíf í borginni.
Þetta er semsagt í höndum Alþingis. En þá skal eitt yfir alla ganga. Og það er ekki hægt að breyta hlutunum afturvirkt.