Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknarflokksins, er algjörlega búin að breyta um tóninn í kosningabaráttu Framsóknar og flugvallarvina.
Hún er búin að söðla um og nú má segja að moskubygging í Reykjavík sé orðin að aðalkosningamáli hennar.
Hún skrifar langa færslu á Facebook síðu sína og boðar nú að Reykvíkingar eigi að greiða atkvæði um Moskubygginguna og segir:
Ég tel að eðlilegt að borgarbúar fái að greiða atkvæði um svo umdeilt mál, en Samfylkingin taldi málið hins vegar of viðkvæmt. Pólitískur rétttrúnaður varð þess valdandi að Samfylkingin gat keyrt málið í gegn.
Nú er spurning hvernig Sveinbjörgu verður ágengt með þetta? Fimmti maður á framboðslistanum, Hreiðar Eiríksson, er hættur og mikið uppnám er innan flokksins. Það er athyglisvert að hún talar hvað eftir annað um „pólitískan rétttrúnað“. Í athugasemdum á Facebook stinga svo upp kollinum þekktir öfgamenn.
En skilar þetta kannski atkvæðum? Er þetta örvæntingarfullt útspil til að ná atkvæðum – er einhver hugsun á bak við þetta? Hvað segir Framsókn? Og hvað segja flugvallarvinir?
—- — —
Þessu eiginlega óviðkomandi:
Sveinbjörg eyðir reyndar mestu plássinu í grein sinni í að fjalla um einhverjar meintar skoðanir síðuhaldara sem hún segir að sé ákafur Samfylkingarmaður. Ég leyfi mér reyndar að hafa efasemdir um að greinina skrifi hún sjálf.
Því er til að svara að Samfylkinguna kaus ég einhvern tíma – þeir eru margir flokkarnir sem ég hef kosið í gegnum tíðina – en ekki í mörgum síðustu kosningum. Samfylkingin er í hópi flokka sem brugðust trúnaði þjóðarinnar á tíma bankabólunnar og síðar hrunsins. Reyndar er Samfylkingin í þeirri stöðu að hún hefur afar vinsælan forystumann í Reykjavík meðan útlit er fyrir að flokkurinn tapi á landsvísu. Munurinn á milli stöðu flokksins og forystumannsins í skoðanakönnunum nemur tugum prósentustiga.
Þarna eru einhverjar fabúleringar um að ég sé ákafur talsmaður atkvæðagreiðslu um ESB. Það er ég ekki – ég sé voða lítinn tilgang í að greiða atkvæði um neitt varðandi ESB fyrr en samningur liggur fyrir.
Og svo segir að ég hafi kvartað undan því að „duttlungar forsetans“ hafi verið á ferðinni í Icesave atkvæðagreiðslunum. Þetta er misskilningur. Ég hef fundið að því eins og fleiri að ekki sé hægt að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslur nema með atbeina forseta. Flestir flokkar hafa að stefnu sinni að breyta því. Ég get vel skýrt frá því að sjálfur sagði ég nei í báðum Icesave-kosningunum.