Getur það verið að skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar skili henni ekki neinu fylgi?
Kurl eiga eftir að koma til grafar varðandi framkvæmdina – hvernig hún snertir almenning í landinu, hverjir fá og hverjir fá ekki. En frumvarpið er komið fram og búið að halda blaðamannafund með forsætisráðherra og fjármálaráðherra um málið.
Skoðanakönnun MMR sem birtist í dag sýnir áframhaldandi fylgistap ríkisstjórnarflokkanna. Könnunin er gerð eftir blaðamannafundinn.
Þar sést að Sjálfstæðisflokkurinn er kominn í 23,9 prósenta fylgi en Framsókn í 14,4 prósent. Þetta er alveg í samræmi við síðasta þjóðarpúls Gallups sem birtist um mánaðarmótin. Þar var ríkisstjórnin með 37 prósenta fylgi. Hjá MMR er það 38,7 prósent.
Merkilegt er að flokkarnir sem skipuðu síðustu ríkisstjórn eru alls ekki að græða á þessu. Traustið á þeim er enn í lágmarki. Samfylkingin mælist með 15,1 prósenta fylgi en VG með 11,5. Fylgið sem yfirgaf flokkana á tíma ríkisstjórnarinnar er ekki að koma aftur. Geta þeir huggað sig við að fylgið fer hraðar af núverandi ríkisstjórn en ríkisstjórninni þeirra?
Það er hins vegar Björt framtíð sem sveiflast upp, mælist nú sem næst stærsti flokkurinn með 17,1 prósents fylgi en Píratar eru í 11 prósentum.