Ég er með hausinn á kafi í bókmenntunum. Er að vinna úr mörg hundruð svörum sem bárust í leit Íslands að öndvegisritum helstum.
Það er ógurlegt verk, en skemmtilegt. Þarna eru náttúrlega frægu bækurnar, en það er ógurlegur fjöldi titla sem er tilnefndur. Ég er þegar búinn að punkta hjá mér bækur sem ég ætla annað hvort að endurnýja kynnin við eða lesa í fyrsta sinn.
Ég vona að þessi könnun geti haft slík áhrif á fleiri.
Úrslitin verða birt í Kiljunni á miðvikudagskvöld. Þá sýnum við ekki bara aðallistann, heldur líka efstu bækur í ýmsum flokkum: Bækur eftir lifandi höfunda, bækur eftir konur, ljóð, leikrit, barnabækur, ævisögur.
Þátttakan hefur verið slík að niðurstöðurnar hljóta að teljast ansi marktækar – þ.e. um bókasmekk þeirra Íslendinga sem horfa á Kiljuna, eigum við ekki að gera ráð fyrir að það bókhneigt fók frekar en hitt.
Það sem er eiginlega efst í huga mér er hvílík ókjör þessi örþjóð hefur skrifað af bókum – og margar býsna góðar.
Á meðan ég er í þessu hefur allt annað farið framhjá mér, meira að segja Evrópuskýrslan sem birtist í dag. Ég veit semsagt ekki hvað í henni stendur, en sýnist að betur hafi tekist til með kynningu á henni en skýrslu Hagfræðistofnunar sem var hent fyrir stjórnmálamenn svo þeir gætu strax tekið til við að rífast.