Hér er gömul ljósmynd sem rifjar upp mikið af skemmtilegu minningum. Þarna er verið að flytja burt húsið sem stóð í Suðurgötu 7. Elsti hluti þessa húss mun vera frá 1833.
Þetta var ekk sérlega stórt timburhús, en stóð á mjög áberandi stað á horni Suðurgötu og Vonarstrætis. Við húsið var nokkuð stór garður sem var alltaf í órækt, en hann var samt fallegur með sínum njóla og óslegnu grasi.
Síðasta hlutverk hússins á árunum fyrir 1983, þegar það var flutt burt, var að hýsa gallerí – það nefndist einfaldlega Gallerí Suðurgata 7. Þegar galleríið tók til starfa 1977 var húsið autt og lá undir skemmdum.
Fyrir þessu stóðu Eggert Pétursson, Ingólfur Arnarson, Bjarni Þórarinsson, Kristinn Guðbrandur Harðarson, Margrét Jónsdóttir, Steingrímur Eyfjörð Kristmundsson og fleiri. Þarna sá maður fjölda myndlistarsýninga sem lifa í minningunni – margir erlendir listamenn sýndu í galleríinu.
Þessu tengdist svo tímaritið Svart á hvítu en þar skrifuðu ungir gáfumenn eins og Örn D. Jónsson, Örnólfur Thorsson og Þórleifur V. Friðriksson. Tímaritið var á afar háu plani og var gefið út nokkurra ára skeið. Maður beið útkomu þess með eftirvæntingu.
Ein stoðin í viðbót undir þessa menningarstarfsemi var svo Fjalakötturinn, kvikmyndaklúbburinn frábæri sem Friðrik Þór Friðriksson stýrði í Tjarnarbíói, rétt handan við hornið í Tjarnargötunni. Þar drakk menningarsinnuð æska í sig kvikmyndir Bergmans, Kurosawa, Werners Herzog og Orsons Welles.
Svo var húsið fært í Árbæinn. Það var byggð íbúðablokk í staðinn. Ég hef ekki komið í það síðan þá. En á æskuárum gekk ég einatt framhjá þessu húsi – stundum oft á dag. Minningarnar eru góðar – og listafólkið sem þarna kom að átti margt eftir að vinna afrek og sigra. En þarna voru fyrstu skrefin.
Suðurgötu 7 verða gerð skil á Listahátíð í vor, því fyrirhuguð er sýning um sögu og áhrif starfseminnar þar. Hún verður haldin í Árbæjarsafni, í gamla húsinu sem var flutt burt 1983.