Fyrir nokkuð mörgum árum var starfandi hér á landi félagsskapur sem nefndist Jafningjafræðslan.
Jafningjafræðslan átti að koma í veg fyrir að börn og unglingar létu undan því sem kallast jafningjaþrýstingur.
Hann getur meðal annars falist í þrýstingi frá umhverfinu – hópnum sem ungmennin umgangast – um að fara að reykja eða drekka.
Þetta var semsagt mjög þarft framtak. Á ensku nefnist þetta peer pressure.
Nú er spurning hvort ekki þurfi smá jafningjafræðslu í stjórnmálin.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra leggur fram frumvarp sem rýmkar fyrir kaupaukagreiðslum í bönkum og fjármálafyrirtækjum – og gerir kleift að stórhækka þær.
Satt að segja höfum við Íslendingar heldur vonda reynslu af bankabónusum. Þessi reynsla er svo nýleg að hún er tæplega farin að gleymast.
Því er varla hægt að finna aðra skýringu á þessu frumvarpi Bjarna en að hann hafi orðið fyrir jafningjaþrýstingi. Í hópi sem hann umgengst vilja menn endilega komast í bónusana – en víðast annars staðar í samfélaginu þykir þetta fráleitt.