Bréf frá Helga Magnússyni sem birtist í Kjarnanum hefur vakið mikla athygli. Bréfið sendi Helgi til valdra viðtakenda.
Helgi er ekki beinlínis maður af götunni, heldur mikill áhrifamaður í viðskiptalífinu. Hann er fyrrverandi formaður Samtaka iðnaðarins og fyrrverandi formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Helgi er í stjórnum stórra fyrirtækja eins og Skipta, Marel, N1 og Bláa lónsins.
Það eru einkum orð Helga um helmingaskipti í viðskiptalífinu sem maður staldrar við. Maður veltir fyrir sér hvort þetta geti verið?
Spillt hugsun Framsóknar og Sjálfstæðismanna, sem mjög hefur verið gagnrýnd og er talin hluti af orsökum hrunsins árið 2008, er enn til staðar. Helmingaskiptamórallinn er enn í fullu gildi. Og þá gegnir Seðlabankinn lykilhlutverki. Hjá bankanum er vistað eignarhaldsfélag sem tekur við ýmsum eignum sem tilheyra uppgjörum eftir hrun vegna þrotabúa og annara mála. Framundan er að þetta eignarhaldsfélag taki við krónueignum úr þrotabúum Kaupþings og Glitnis, m.a. hlutabréfum í Arion og Íslandsbanka. Þá skiptir miklu máli að Framsóknarmenn fái annan bankann á mjög góðu verði og handgengnir sjálfstæðismenn hinn. Við slíkar aðstæður gengur ekki að hafa við stjórnvölinn í Seðlabankanum annað en „strangheiðarlega“ sendisveina flokksins.
Það er líka merkilegt að sjá hvernig Helgi leggur til atlögu við fyrrverandi forsætisráðherra og ritstjóra Morgunblaðsins. Um það segir glöggur greinandi stjórnmála og viðskiptalífs sem sendir þessar línur:
DO hefur ennþá mjög mikið vald þó ekki sé það formlega. En hann er sennilega ennþá einn valdamesti maður þjóðarinnar og það er augljóst að hin unga forystusveit Sjálfstæðisflokksins er skíthrædd við hann. Merkilega margir eru það líka í atvinnulífinu. Menn hafa ekki þorað að hjóla í karlinn en ég hef beðið eftir að einhver léti til skarar skríða um langt skeið. Þorgerður Katrín reyndi fyrir sér um daginn í GMB en hafði ekki erindi sem erfiði. En nú mundar Helgi Magnússon sverðið! Hann hjólar af krafti í DO, fullur sjálfstrausts eftir að hafa endurheimt tögl og haldir í SI á dögunum og eftir að hafa snúið niður Höskuld í Aríon varðandi forstjórastólinn í Símanum. Helgi dreifir tölvupóstinum víða til að tryggja að hann rati í fjölmiðla. Nú er að sjá hver viðbrögð DO verða. Og hvort einhverjir hoppi á vagninn hjá Helga og sjái loksins möguleika á að losna við gamla foringjann. Þetta gæti orðið „ugly“ eins og maðurinn sagði! En eru stórtíðindi í íslensku stjórnmálalífi.