Enski rithöfundurinn Hilary Mantel lenti í miklu fjölmiðla- og netfári í fyrra þegar hún lét óvinsæl ummæli falla um bresku konungsfjölskylduna og sérstaklega prinsessuna Kate Middleton. Mantel er afar virtur og vinsæll höfundur og hefur hlotið Booker-verðlaunin tvívegis á síðustu árin.
Mantel er í viðtali í nýjasta hefti tímaritsins New Statesman. Þar tjáir hún sig um þetta fár – viðtalið ber á ensku yfirskriftina I do think the level of public debate is debased.
Hér er brot úr viðtalinu sem gæti átt erindi víðar:
Ég tel að almenn umræða sé komin á mjög lágt plan. Til að skilja hvað þetta er djúpt sokkið, hvað þetta er slæmt, þarf maður eiginlega að verða fyrir hatursherferð sjálfur. Satt að segja, snerti það mig ekki jafn mikið að sumir gætu haldið.
En það sem veldur mér skelfingu er að fólk virðist telja að þessi linnulausi og smáskítlegi óhróður séu einhvers konar frelsi. “Sjáið, hér er ég, að segja mína skoðun!“ […] En þannig er það ekki. Þetta er eins og brauð og leikir til forna, leiðir okkur burt frá því sem skiptir máli.
Þetta hefur komið í staðinn fyrir alvöru þátttöku í stjórnmálum og samfélagsmálum. Mest af þessu er bara skammir og einelti. Þarna birtist þröng og andstyggileg einsleitni. Fólk er hrætt við að skera sig úr hópnum, kannski skiljanlega. Mér finnst þetta vera afskaplega döpur staða.
Hilary Mantel hefur fengið Booker verðlaunin tvívegis, fyrir Wolf Hall 2009 og fyrir Bring up the Bodies 2012. Báðar bækurnar fjalla um Thomas Cromwell, sem var valdamaður á tíma Hinriks konungs VIII.