Það er athyglisvert þegar helmingur þeirra sem segjast kjósa Sjálfstæðisflokkinn kveðast vera reiðubúnir til að kjósa nýjan hægri flokk. Og það á tíma þegar fylgi Sjálfstæðisflokksins er í sögulegu lágmarki. Í þessu felst talsverð vísbending um þá upplausn sem ríkir í stjórnmálunum og vandræði hefðbundinna flokka, en þau birtast meðal annars í því samanlagt fylgi fjórflokksins hefur aldrei verið minna.
Menn velta því fyrir sér hverjir gætu farið í slíkan hægriflokk?
Eiríkur Bergmann Einarsson nefnir „hægri krata“ í því sambandi – segir að nýr hægriflokkur gæti hoggið djúpt í raðir þeirra. Þeir hafi verið heldur „landlausir“ síðan á tíma Alþýðuflokksins.
Nú er það svo að í stjórnmálaumræðu erlendis rekst maður ekki oft á heitið „hægri krata“. Þar er hins vegar gjarnan talað um liberals og liberalisma. Á íslensku er þetta þýtt sem frjálslyndir og frjálslyndisstefna. Frjálshyggju er stundum ruglað þarna saman við – en hún er ekki það sama.
Frjálslyndir flokkar eru til víða um lönd. Þeir eru yfirleitt staðsettir á miðjunni eða aðeins til hægri við hana. Hér á Íslandi var eitt sinn til Frjálslyndur flokkur en hann sameinaðist Íhaldsflokknum til að mynda Sjálfstæðisflokkinn 1920. Svo stofnaði Sverrir Hermannsson annan flokks sem líka kallaðist Frjálslyndi flokkurinn, en hann var mjög bundinn við persónu hans og baráttuna gegn kvótakerfinu.
Frjálslyndir sækja hugmyndagrunn sinn í repúblikanisma frönsku byltingarinnar, bandarísku stjórnarskrána, John Locke, John Stuart Mill, hugsjónir um frjálsa verslun og athafnafrelsi einstaklingsins. Hugmyndastraumurinn sem kratar, jafnaðarmenn, byggja á kemur úr annarri átt. Það er ekki langt síðan jafnaðarmenn trúðu því enn að ríkið ætti að eiga framleiðslutæki.
Það verður að segjast eins og er að frjálslyndisstefna hefur ekki átt sérstaklega upp á pallborðið á Íslandi. Við höfum komið okkur upp flóknum kerfum hafta, boða og banna – kerfum sem hefta athafnafrelsi einstaklingsins – og þau eiga sér formælendur í öllum stjórnmálaflokkum og oftar en ekki eru það þeir sem ráða ferðinni.
Frjálslynda má finna í kjósendahópi Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Bjartrar framtíðar. Á tíma Halldórs Ásgrímssonar þokaðist Framsóknarflokkurinn býsna nálægt frjálslyndisstefnu, en nú hefur hann fjarlægst hana aftur.
En almennt séð eru frjálslyndir frekar landlausir í íslenskri pólitík.