Ef frétt Morgunblaðsins um að Már Guðmundsson hafi látið Seðlabankann greiða kostnaðinn vegna málaferla sinna er rétt, er ljóst að dagar hans í bankanum eru brátt taldir.
Þetta ber vott um gríðarlegan dómgreindarskort. Maður trúir þessu varla, en fréttin hefur ekki verið borin til baka.
Már fór í mál til að reyna að sækja hærri laun, hann tapaði málinu. Þetta er alfarið hans einkamál.
Málsóknin var reyndar mjög misráðin á sínum tíma. Seðlabankastjórinn vildi fá laun sín hækkuð á sama tíma og þjóðin var að taka á sig mikla kjaraskerðingu og bakinn hafði í frammi umvandanir um að ekki mætti hækka launi.
Hvað veldur því að menn missa svona sjónar á því sem er rétt og siðlegt? Á hér við gamla máltækið að margur verði að aurum api?
En við þessar kringumstæður er ljóst að bankastjórinn missir alla samúð. Það verður létt verk fyrir ríkisstjórnina að skipa annan í hans stað.
Reyndar er víðar pottur brotinn í kjaramálum á æðstu stöðum. Undanfarin ár höfum við þurft að hlusta upp á sárar kvartanir bankastjóra Landsbankans um að hann sé ekki með nógu hátt kaup. Landsbankinn er nær alfarið í eigu ríkisins.
Nú er harmagráturinn ekki alveg jafn sár, því þeim tókst að toga laun bankastjórans verulega upp – þótt enn sé hann nokkur eftirbátur kollega sinna í Arion og Íslandsbanka.