Stundum sýnist manni að þurfi að efla fræðslu um lýðræði á Íslandi. Það verður að segjast eins og er að meðal þjóðarinnar ríkir hálfmanískt ástand og hlutir sem áður þóttu nokkuð sjálfsagðir virka afar ruglingslegir.
Þannig er til dæmis þegar menn leggja að jöfnu afskipti Evrópusambandsins og Rússlands af Úkraínu.
Það sem hleypti öllu í bál og brand í Úkraínu var þegar Janúkóvits forseti hafnaði snögglega samningi við Evópusambandið sem var í burðarliðnum. Þetta gerði hann eftir hótanir og fortölur Pútíns forseta.
Samningurinn er gerður til að auðvelda viðskipti milli Evrópusambandsríkja og Úkraínu og önnur samskipti milli ríkjanna. Efnahagslega hefur hann mikla þýðingu – og líka vegna þess að hann færir Úkraínu nær lýðræðisþjóðum vestursins. En Pútín vildi öllu til kosta að þessi samningur yrði ekki að veruleika.
Í honum er nefnilega fjallað um aðgerðir til að efla lýðræði, mannréttindi og réttarríkið í Úkraínu. Þarna eru nefnd nokkur skilyrði sem Úkraína þarf að reyna að uppfylla.
Endurskoðun á dómskerfi Úkraínu, skipulagi lögreglumála og á kosningakerfi.
Barátta við spillingu.
Endurbætur á viðskiptaumhverfi í landinu.
Það er vissulega áhyggjusamlegt ef fasísk öfl fylgja með í umróti af þessu tagi – í Úkraínu eru þau báðum megin línunnar og sumir fasistarnir eru meira að segja í jakkafötum. En eina svarið við því er að reyna að styrkja lýðræðisöflin og málstað þeirra á alla lund.