Pólitísk staða ríkisstjórnarinnar hefur veikst furðulega mikið á fáum vikum. Hún hefur einfaldlega gengið of mikið á sína pólitísku innistæðu, hugsanlega ofmetið hversu stór hún er. Það byrjaði með lekanum um Seðlabankann, hann skapaði þá tilfinningu að stjórnin vissi ekki hvað hún væri að gera eða að hún stæði í baktjaldamakki.
Svo kom sprengjan – þingsályktunartillagan um að binda endi á aðildarviðræður við Evrópusambandið. Kannski hélt ríkisstjórnin ekki að þetta yrði svona stórt mál – en taktískt tókst þetta afleitlega. Þingsályktunartillagan leit dagsins ljós næstum á sama tíma og skýrsla Hagfræðistofnunar sem átti að vera grunnur undir málefnalega þjóðfélagsumræðu.
Þetta er mikið pr-klúður.
Nú er eins og stjórnin hafi gefist upp á að sannfæra kjósendur um að rétt sé að slíta aðildarviðræðunum. Í staðinn gengur málflutningurinn út á að Evrópusambandið vilji slíta. Samt var eiginlega ekkert um það rætt þegar þingsályktunartillagan kom fram – þetta virka eins og eftirárök.
En er þá ekki bara sniðugast að bíða eftir því að ESB láti af þessu verða, lýsi yfir vanþóknun sinni með seinagang Íslendinga eða bara bindi endi á aðilarferlið? Það myndi teljast rækilegur sigur fyrir andstæðinga ESB og þá yrðu deilurnar úr sögunni.
Í staðinn hafa upphafist ruglingslegar þrætur um hver sagði hvað hvenær og hverjar eru venjurnar innan ESB og hversu lengi þjóðir hafa verið í aðildarferli. Úr þessu hlýtur að vera hægt að fá skorið á fáum dögum með því einfaldlega að spyrja.
Og ennfremur er menn nú farnir að deila um hvort þjóðaratkvæðagreiðslur séu bindandi eða ekki. Í því er auðvitað ekki neitt nýtt – þetta er veruleiki sem hefur lengi verið kunnur. Menn geta hins vegar ákveðið að þeir ætli að fara eftir niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu – það ætti ekki að vera erfitt að bindast slíkum fastmælum.
Þetta virkar eins og stjórnin sé á undanhaldi, hrekist úr einu víginu í annað. Maður veit ekki hvar verður staðnæmst á morgun. Kannski tekst henni með þessu að þæfa málin þar til öldurnar lægir, en maður skyldi ekki vera of viss um það.
Allt ber þetta að sama brunni. Pólitísk staða ríkisstjórnarinnar er mun veikari en virtist fyrir stuttu. Hún getur ekki annað en stigið varlega til jarðar á næstunni.