fbpx
Mánudagur 07.júlí 2025
Eyjan

Blaðamennska 101

Egill Helgason
Þriðjudaginn 4. mars 2014 10:08

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á blaðamennskuferli sem spannar 33 ár hef ég aldrei heyrt að viðmælendur ættu tilkall til þess að orð þeirra væru birt í heild sinni, óklippt.

Blaðamenn vinna undir ýmsum takmörkunum, ekki síst hvað varðar lengd. Í blöðum er hún mæld í dálksentímetrum, í sjónvarps- og útvarpsfréttum í mínútum.

Ef tekið er viðtal sem telur samtals fimm mínútur, en fréttin er ein og hálf mínúta, gefur auga leið að ekki er hægt að birta allt viðtalið.

Það er verkefni blaðamannsins að velja úr viðtalinu það sem hann telur fréttnæmt. Á blöðum er stundum haft samband við þann sem rætt er við og hann beðinn um að staðfesta að rétt sé haft eftir, í ljósvakamiðlum er spilað af bandi og því er það óþarft.

Þetta er auðvitað svo einfalt að ekki á að þurfa að skýra það út. En þjóðfélagsumræðan á Íslandi er orðin svo öfugsnúin að einföldustu hlutir virðast flóknir og verða tilefni til deilna.

Hinn margreyndi fréttamaður Ómar Ragnarsson gerir þetta að umtalsefni í bloggpistli. Flestir sem hafa fengist við blaðamennsku þekkja dæmi um viðmælendur sem vilja stjórna viðtölum eða fimbulfamba út í eitt. Og eins og Ómar segir er oft erfitt að eiga við stjórnmálamenn, þeir leggja sig ekki allir fram um að tala skýrt og oft eru þeir að reyna að koma sér undan því að svara spurningum. Ómar segir:

Aldrei gerðist það þó að viðkomandi stjórnmálamaður eða ráðherra heimtaði að allt viðtalið yrði sýnt óstytt, hvað þá að þeir fengju það í hendur til að geta stjórnað styttingu þess því að menn gerðu sér þrátt fyrir allt grein fyrir því að fréttatíminn þoldi ekki skjaldbökutempó og málalengingar og að úr því að þeir höfðu ekki getað klára málið á skaplegum tíma yrðu þeir að taka því að viðtölin yrðu stytt eftir þörfum.

Ómar getur þess svo sérstaklega hversu fagmannlegur Steingrímur Hermannsson var í samskiptum við fjölmiðla. Hann hafði lagt sig fram um að skilja við hvaða skilyrði blaðamenn starfa varðandi lengd frétta og tímahrakið sem þeir eru oft í. Ómar hefur þessi orð eftir Steingrími:

„Það er ekki lengd svarsins sem skiptir máli heldur það hvort það er gott eða slæmt“.

Annar gamalreyndur og framúrskarandi blaðamaður, Þór Jónsson, leggur orð í belg á Facebook og fjallar um kröfu utanríkisráðherra að fá afhent gögn fréttamanns. Eins og kemur fram hjá Þór er slík krafa býsna framandleg:

Viðtal verður eign fjölmiðils þegar það hefur verið hljóðritað, til úrvinnslu í samræmi við viðurkenndar siða- og sanngirnisreglur; þetta er viðtekin regla. Ég skoðaði að gamni nýju fjölmiðlalögin. Skv. 35. gr. ber fjölmiðli að varðveita efni sem er „miðlað“ í tiltekinn tíma. Hinu, sem ekki er miðlað, má greinilega henda. Í því sambandi getur réttur þess, sem á heimtingu á andsvari skv. 36. gr., til að fá afrit af efni sem snertir ágreininginn („sem um er að ræða“) tæplega átt við annað efni en það sem lögum samkvæmt á að varðveita, þ.e. því sem var útvarpað, sbr. og orðalag í gömlu útvarpslögunum um afrit til handa útvarpsréttarnefnd á upptöku á útsendu efni.

Eiríkur Jónsson er svo með ágætan punkt á heimasíðu sinni:

Fjölmiðlar ættu kannski að láta það eftir utanríkisráðherra að birta allt sem hann segir óklippt og athugasemdalaust. Slíkt þolir enginn til lengdar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Heillandi fól

Óttar Guðmundsson skrifar: Heillandi fól
Eyjan
Fyrir 1 viku

Safna undirskriftum til að skora á Alþingsmenn að stöðva málþófið

Safna undirskriftum til að skora á Alþingsmenn að stöðva málþófið