Það verður ekki annað sagt en að Kristján Loftsson sé ævintýramaður – um það þarf enginn að efast sem les þessa frétt Eyjunnar. Og ekki er hann gjarn á að gefast upp.
Nú er hann búinn að taka yfir flutningaskipið Ölmu sem var mikið í fréttum fyrir tveimur og hálfu ári þegar það var kyrrsett á Fáskrúðsfirði eftir að það tapaði stýrinu í vondu veðri.
Kristján ætlar að láta skipið sigla með 2000 tonn af hvalkjöti til Japans. Hann ætlar semsagt beint með kjötið á markað, það virðist vera ófært að koma því í gegnum önnur lönd.
Og náttúrlega er spurning um markaðinn í Japan. Hvalkjöt er ekki auðseljanlegt þar og hefur meðal annars farið í hundamat. Það hefur mælst afar illa fyrir.
En Kristján lætur ekki deigan síga fremur en fyrri daginn. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig gengur að koma skipi og farmi alla leiðina til Japans, þessa óralöngu siglingaleið, og hvort samtök eins og Greenpeace láta skipið óáreitt – nú eða Bandaríkjastjórn?
Hvalkjötinu skipað upp í Ölmu í höfninni í Hafnarfirði. Mynd: Eyjan.