Það verður áhugavert – og hugsanlega skelfilegt – að fylgjast með framgöngu Rússa í Úkraínu.
Pútín forseti var uppfóstraður í KGB á tíma Sovétríkjanna, hann hefur sjálfur harmað fall Sovétríkjanna.
Fall Sovétríkjanna leiddi til þess að rússneska heimsveldið – sem hafði verið til frá tíma keisaranna – liðaðist í sundur. Eystrasaltslöndin fóru sína leið og eru komin inn í Evrópusambandið. Því verður varla snúið við. Eftir langar hörmungar komust Lettland, Litháen og Eistland loks í faðm Evrópu – rétt eins og Pólland. Áhrif Póllands innan Evrópu fara mjög vaxandi og það er verðskuldað.
Úkraína varð líka sjálfstætt ríki, sem og Armenía, Georgía, Úsbekistan, Tjaíkistan, Kazhakstan, Aserbaijdan, Moldavía og fleiri fyrrum Sovétlýðveldi.
Þarna eru ýmsar flækjur. Ofantalin ríki eru flest enn á rússnesku áhrifasvæði. Sár sovéttímans eru líka langt í frá gróin. Víða voru heilu þjóðirnar fluttar burt frá heimkynnum sínum og en Rússar fluttir inn í staðinn. Þetta gerðist til dæmis á Krímskaga, þjóð Tatara sem þar bjó var flutt burt nauðug í heilu lagi á sléttur Mið-Asíu. Fleiri voru fluttir burt í miklum þjóðernishreinsunum – til dæmis fjöldi Grikkja sem hafði búið á Krím frá örófi alda.
Það er merkilegt að Georgíumaðurinn Stalín gekk hvað lengst í að brjóta þjóðir undir rússneskt ok. Það var á tíma hans að manngerða hungursneyðin sem kallast holodomor kostaði milljónir mannslífa í Úkraínu. Þar voru Úkraínumenn beinlínis sveltir til undirgefni.
Nú er spurningin hversu langt Rússar eru tilbúnir til að ganga til að vernda veldi sitt. Það er ekki langt síðan Rússar gripu til vopna gegn Georgíu. Nú eru rússneskir hermenn komnir á Krímskaga og sitja um herstöðvar Úkraínumanna.
Pútín vill fá að ráða því hvernig stjórnarfar er í ríkjunum í kringum Rússland. Hann kærir sig ekki um að hafa vestrænt lýðræði og ráðamenn sem vilja færast nær Evrópu á áhrifasvæði sínu. Menn eins og Janúkovits, sem nú hefur verið settur af í Úkraínu, eru honum að skapi, spilltir og lítilþægir. Svoleiðis menn stjórnuðu leppríkjunum á tíma Sovétsins. Almenningsálitinu skal stjórnað í nafni siðvendni og gamalla gilda – þar eru samkynhneigðir hafðir að blórabögglum líkt og gyðingar áður fyrr. Frjálsir fjölmiðlar sæta ofsóknum, í staðinn eru menn eins og Dmitrí Kiselev látnir breiða út boðskapinn.
Á þessum tíma er algjörlega fráleitt að Íslendingar, sem eru vestræn lýðræðisþjóð, færi sig nær Rússum. Þvert á móti þarf að mótmæla framferði Moskvustjórnarinnar hátt og snjallt og hafa mikinn vara á í samskiptum við þjófræðið og þjóðernisofstopann sem ræður ríkjum í veldi Pútíns.