Ólafur Ragnar Grímsson flaskar á einu.
Það er ekki gagnrýni á athafnir Rússa sem spillir samstarfi á Norðurslóðum, heldur eru það sjálfar athafnir Rússa sem spilla samstarfinu.
Á þessu er munur.
Norðmenn eru rík þjóð og stolt og þeir hafa oft gert hluti sem hafa komið sér illa fyrir þá sjálfa á vettvangi alþjóðaviðskipta.
Þar má nefna þegar Norðmenn veittu andófsmanninum Liu Xiaobo friðarverðlaun Nóbels.
Það vakti mikla reiði hjá Kínastjórn og hún hefur reynt að ná sér niðri á Norðmönnum með ýmsum hætti.
Gagnrýni norsks ráðherra á Rússa kemur ekki á óvart, hún er mjög í anda norskrar utanríkisstefnu. En viðbrögð forseta Íslands vekja athygli – í raun hefði farið betur á því að hann hefði þagað fyrst hann hafði ekki annað til málanna að leggja en að skensa norska ráðherrann.