Um fátt er jafnmikil sátt á Íslandi og um að hið opinbera skuli reka heilbrigðisþjónustuna – að norrænni fyrirmynd. Kannanir benda til þess að um 80 prósent þjóðarinnar séu þeirrar skoðunar. Hugmyndin um að einhverjum sé neitað um heilbrigðisþjónustu vegna efnahags eða hann skilinn út undan er Íslendingum mjög framandi.
Þetta kerfi hefur líka gefist vel að því leyti að óvíða er heilsufar betra og langlífi meira en á Norðurlöndunum, auk þess sem heilbrigðiskerfið þar er mun ódýrara en til dæmis í Bandaríkjunum. Einnig er minni munur á heilbrigði eftir stétt og stöðu en víða annars staðar.
Það hlýtur því að teljast býsna djarft hjá prófessor við Háskóla Íslands og einum helsta efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar að setja sig upp á móti þessu.
Að sumu leyti dáist maður að slíkri dirfsku, en þá rifjast upp að prófessorinn hefur alltaf verið kreddumaður – og því vanur að vera í minnihluta.
Hann var kommmúnisti í eina tíð, skipti svo um lið og varð harður frjálshyggjumaður – og harðasti talsmaður einkaeignar á kvóta. Hugmyndafræðin breyttist, en ekki kreddufestan.
Ragnar Árnason er í viðtali við tímarit hagfræðinema sem nefnist Hjálmar. Þar hefur hann uppi stór orð um hversu hryllilegt opinbert heilbrigðiskerfi er í grein sem beinlínis nefnist Samfélagsleg skaðsemi opinberra heilbrigðistrygginga.
Eins og áður segir er Ragnar einn helsti efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar, hann er formaður sérstaks ráðgjafaráðs fjármálaráðherra og situr einnig í stjórn Seðlabankans. Hann hefur jafnvel verið nefndur sem hugsanlegur seðlabankastjóri.