Það þykir væntanlega saga til næsta bæjar ef trúnaðarsamband er milli fyrrverandi forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins og núverandi forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins.
Ekki myndi þetta síst sæta tíðindum innan flokkanna sjálfra, en það hefur reyndar verið kunnugt um nokkurt skeið að Davíð Oddsson hefur mun meira dálæti á Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni en Bjarna Benediktssyni – sem þó kemur úr flokknum sem hann veitti forystu um langt skeið.
Sveinn Andri Sveinsson lögmaður – sem að sönnu er ekki aðdáendaklúbbi hvorki Sigmundar né Davíðs – setti þessa færslu inn á Facebook í gærkvöldi.
Ritstjóri Morgunblaðsins dvaldist nýverið næturlangt í sumarbústað forsætisráðherra til skrafs og ráðagerða. Veizlumatur var á borðum og viskí drukkið sem Ólafur Thors hélt mikið upp á. Sézt hefur jafnframt til forsætisráðherra koma af löngum kvöldfundum heima hjá ritstjóranum. Það mun víst vera frekar þungt í ráðherrum Sjálfstæðisflokksins sem spyrja sig hvort Sigmundur Davíð sé í stjórnarsamstarfi með þeim eða Davíð Oddssyni.