Þessi teikning Halldórs Baldurssonar úr Fréttablaðinu hittir algjörlega í mark.
Þarna eru utanríkisráðherrann og norðurslóðaveldið sem að nokkru leyti er hugarfóstur Ólafs Ragnars Grímssonar.
Ólafur var í Sankti Pétursborg um daginn og talaði um norðurslóðirnar – af því mátti helst skilja að þar væri höfuðborg hins nýja norðurs.
Þar tók hann líka að sér að útskýra afstöðu Íslands til Evrópusambandsins – svona í heimleiðinni frá Sochi þar sem hann hitti Pútín stuttlega.
Fundur þeirra Ólafs og Pútín í september síðastliðinum var mun formlegri, en mærðu þeir forsetarnir hvor annan og Ólafur lagði sérstaka áherslu á mikilvægi tengslanna við Rússland – um það má lesa á heimasíðu Kremlar.
Þetta gerist á sama tíma og Úkraínumenn eru í frelsisbaráttu til að losna undan ægivaldi Moskvustjórnarinnar og þeirri spillingu og útbreiddu glæpastarfsemi sem fylgja stjórnarháttum Pútín og þeirra sem hlíta leiðsögn hans.
En Ólafur virðist vera orðinn nokkuð innmúraður í hirðina í kringum Pútín, því í fréttinni af Rússlandsför hans segir að Ólafur hafi líka hitt Vasilí Giergiev. Giergiev þessi er hljómsveitarstjóri og helsti taglhnýtingur Pútíns í menningarlífinu. Undir Gergiev er hlaðið með ýmsum hætti, hann fær ómælda peninga, orður og hljómleikahallir undir sig, en á móti er hann óbilandi stuðningsmaður forsetans – það er jafnvel sagt að hann hafi gert samning við sjálfan skrattann eins og Doktor Faustus í skáldsögu Thomasar Mann. Meðal annars hafa samkynhneigðir staðið fyrir mótmælum þegar Gergiev stjórnar á Vesturlöndum.
Heilkennið er þekkt frá tíma Sovétsins. Sem hjómsveitarstjóri er Giergiev í besta falli miðlungs, en hann er duglegur og iðinn og kemur sér í mjúkinn hjá valdsherrum.