Í Kiljunni á miðvikudagskvöld skoðum við rithöfundaferil Þórunnar Erlu- Valdimarsdóttur, en hún hlaut Fjöruverðlaunin um síðustu helgi fyrir bókina Stúlka með maga.
Þórunn hefur skrifað fjölda bóka og þær eru mjög margvíslegar. Strangfræðileg sagnfræðirit, bækur um sögu þar sem hugarflugið fær líka að njóta sín, spennusögur sem eru byggðar á Íslendingasögunum, ljóðabækur, ævisögur – og svo erótísk bók sem hún skrifaði með Megasi.
Þórunn er einstök persóna, hugmyndarík og afar frjó, en um leið segja vinir hennar og ættingjar að hún sé mjög skipulögð og hafi mikinn sjálfsaga.
Í þættinum er rætt við Þórunni, fólk sem tengist henni og einnig eru sýnd brot úr safni sjónvarpsins þar sem hún kemur við sögu.
Bókamarkaður Félags íslenskra bókaútgefenda er árviss viðburður, en nú er hann haldinn við Laugardalsvöll. Gagnrýnendur þáttarins, Kolbrún Bergþórsdóttir og Sigurður Valgeirsson, fóru á markaðinn og fundu sér bækur til að lesa.
Þórunn og systir hennar Lilja. Þórunn er úr stórri fjölskyldu, skilnaðarbarn eins og hún segir sjálf, með ákveðna köllun til að uppfræða yngri systur sínar – og lesendur.