Á síðasta kjörtímabili voru haldnar fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslur síðan 1944 þegar Ísland varð lýðveldi. Til lýðveldisins var stofnað með þjóðaratkvæðagreiðslu.
En í 64 ár eftir það sáu menn ekki ástæðu til að nota þetta lýðræðisform.
Ekki fyrr en í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave snemma árs 2010. Önnur þjóðarakvæðagreiðsla um Icesave var haldin 2011. 2012 var svo haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs.
Það má nefna að fyrri tvær þjóðaratkvæðagreiðslurnar gengu gegn hugmyndum þáverandi ríkisstjórnar, með þeim var stjórninni gert að fylgja stefnu sem hún hafði ekki aðhyllst. Lýðræðið getur nefnilega líka komist að þeirri niðurstöðu.
Þriðja þjóðaratkvæðagreiðslan var einungis „ráðgefandi“ – jú, svo ráðgefandi að menn hafa kosið að taka ekkert mark á niðurstöðum hennar.
Nú ber svo við að þjóðaratkvæðagreiðslum er flaggað í tíma og ótíma. Harðar deilur eru um loforð Sjálfstæðisflokksins um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við ESB. Kannski stóð aldrei til að efna það?
Krókur á móti bragði í því máli virðist eiga að vera klausa í þingsályktunartillögu um viðræðuslit þar sem segir að:
…ekki skuli sótt um aðild að Evrópusambandinu á nýjan leik án þess að fyrst fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort íslenska þjóðin stefni að aðild að Evrópusambandinu.
Það á semsagt ekki að greiða atkvæði um hvort halda skuli áfram viðræðum – en ef einhver ríkisstjórn síðar vill fara út í aðildarviðræður er reynt að leggja á hana þá kvöð að fara skuli fram þjóðaratkvæðagreiðsla?
Má kannski segja að þetta tal um þjóðaratkvæðagreiðslur sé komið út í rugl?
Tveir lagaprófessorar, Björg Thorarensen og Ragnhildur Helgadóttir segja á vef Vísis að klausan um þjóðaratkvæðagreiðslu í þingsályktuninni sé pólitísk yfirlýsing og – og ekki bindandi.
Eða með orðum Bjargar:
Loforðið um þjóðaratkvæðagreiðslu er í raun innantómt.
Í framhaldi af þessu má svo spyrja hvort tímabilinu þar sem við notum þjóðaratkvæðagreiðslur sé lokið um sinn, hvort það hafi kannski bara verið stuttur millikafli í sögu lýðveldisins – að minnsta kosti virðist hentistefnan ein ráða för í þessum efnum.