Þessi grafíska útlistun á skoðanakönnun MMR sem birtist í Viðskiptablaðinu sýnir hvers vegna þingsályktunartillagan um að draga til baka aðildarumsóknina að Evrópusambandinu mun ekki skaða Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn.
Einungis um tíu prósent stuðningsmanna flokkanna segjast vera hlynntir aðild. Málið vekur nákvæmlega engin heilabrot í Framsókn, en um Sjálfstæðisflokkinn er það að segja að límið í honum er svo sterkt að það virðist með öllu ómögulegt fyrir fólk eins og Þorstein Pálsson, Benedikt Jóhannesson, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, Helgi Magnússon og Ólaf Stephensen að segja skilið við flokkinn. Félög atvinnurekenda og viðskipta eru heldur ekki að fara að stökkva í átt til fylgis við Samfylkinguna. Það er líkast því að tröllatak lími þessa aðila við flokkinn.
Bjarni Benediktsson virðist vissulega hafa svikið sáttmála sinn við Sjálfstæða Evrópumenn, en geta þeir refsað honum fyrir það – þora þeir og eru þeir í aðstöðu til þess?
Eða ætli verði margir Sjálfstæðismenn að mótmæla á Austurvelli í dag?
Fylgi Sjálfstæðisflokks er langt undir meðaltali lýðveldistímans. Fátt bendir til þess að flokkurinn fari aftur í sín gömlu 37-40 prósent. En brátt fara menn að horfa til sveitarstjórnakosninga sem eru í maí. Líkur eru á að þar muni Sjálfstæðisflokkurinn fá góð úrslit víðast hvar, nema í Reykjavík. En einhvern veginn virðist stefna í að Framsóknarflokkurinn komist varla á blað í kosningunum.