Aðildarumsóknin að ESB var dautt dæmi strax árið 2010, þá var ekki liðið ár frá því umsóknin var send til Brussel.
Þá hafði það gerst að Ísland var komið í erfiða alþjóðadeilu vegna Icesave. Hún olli því að þjóðerniskennd magnaðist og um leið andstaðan við ESB.
Á sama tíma hófst alvarleg kreppa í Evrópu – um tíma var því spáð að evran, ein helsta ástæða þess að Ísland myndi ganga í ESB, myndi ekki lifa af.
Evrópusambandið var hætt að vera jafn aðlaðandi og áður var.
Nöglunum í líkkistu aðildarumsóknarinnar fjölgaði.
Vinstri græn engdust sundur og saman vegna umsóknarinnar – flokkurinn mátti sjá á bak fjölda þingmanna sinna og stuðningsmanna vegna ESB.
Að lokum fengu Vinstri græn því framgengt að gert var viðræðuhlé um áramótin 2012/2013, fjórum mánuðum fyrir kosningar. Ekki hafa verið neinar viðræður við ESB í meira en ár. Það var síðasta ríkisstjórn sem stoppaði viðræðurnar, ekki sú sem nú situr. Málið var orðið of óþægilegt fyrir hana, enda hafði hún breyst í minnihlutastjórn vegna deilnanna um ESB.
Ári áður, í nóvember 2011, hafði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, lagt til að gert yrði hlé á viðræðum til að sjá hvernig mál þróuðust í Evrópu, hann sagði:
Til að sætta ólík sjónarmið lagði ég fram tillögu sem ætti að henta öllum, hvar sem þeir standa gagnvart Evrópusambandinu. Hugmynd um að gera hlé á viðræðunum eins og Svisslendingar og Maltverjar gerðu á sínum tíma. Hléið gæti staðið í eitt og hálft eða 2 ár og að þeim tíma liðnum greiddu menn atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort haldið skyldi áfram.
Umsóknin var komin í öngstræti á þessum tíma og allar skoðanakannanir sýndu mikla andstöðu við inngöngu í ESB – var þetta tilboð kannski eitthvað sem ríkisstjórnin hefði mátt íhuga?
Ólafur Ragnar Grímsson, áhrifamesti andstæðingur ESB aðildar, var endurkjörinn sem forseti Íslands sumarið 2012 með miklum yfirburðum. Eftir því sem vinsældir hans hafa aukist, hafa yfirlýsingarnar gegn aðild orðið digurbarkalegri.
Á tíma stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur vantaði sárlega stjórnmálamenn sem voru tilbúnir að tala fyrir ESB aðild. Andstæðingar aðildar áttu sviðið, með Heimssýn, Ólaf Ragnar og Hádegismóa í fararbroddi. Því var líkast að stjórnarliðar þess tíma ætluðu að bíða af sér andróðurinn og mæta svo með glæstan aðildarsamning sem slægi vopnin úr höndum andstæðinga. En í raun töpuðu þeir áróðursstíðinu.
Aðildarviðræðurnar tóku miklu lengri tíma en ætlað hafði verið. Það var ekki einu sinni byrjað að ræða stærstu og erfiðustu málin. Ýmsar skýringar eru á því, þó aðallega óeining heimafyrir og upplausnin sem varð í Evrópu vegna evrukreppunnar. Það var heldur ekki – og er ekki enn – ljóst í hvaða átt Evrópusambandið stefnir. Verður það í auknum mæli sambandsríki? Yfirgefur Bretland Evrópusambandið?
Í kosningunum í apríl síðastliðnum unnu flokkar sem eru andsnúnir Evrópusambandsaðild yfirburðasigur. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur mynduðu ríkisstjórn, en utan hennar eru andstæðingar ESB aðildar í VG. Aðeins tveir Evrópuflokkar eru á Alþingi, með samanlagt 21 prósent af fylginu eða 15 þingmenn. Í núverandi ríkisstjórn er ekki einn einasti Evrópusinni og líklega eru þeir ekki fleiri en tveir eða þrír í samanlögðu stjórnarliðinu. Einn helsti leiðtogi Evrópusinna í Sjálfstæðisflokknum, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, var flæmd út úr pólitík.
Nú er deilt um þjóðaratkvæðagreiðslu. Vissulega lofaði Sjálfstæðisflokkurinn slíkri atkvæðagreiðslu fyrir kosningar. Hann fær væntanlega að súpa seyðið af því í beiskum innanflokksátökum. Hugsanlega yfirgefa einhverjir Evrópusinnar flokkinn. En á móti kemur að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var margsinnis hvött til að halda þjóðaratkvæðagreiðslu áður en farið var í að senda inn umsókn. Hefði niðurstaða hennar verið jákvæð – sem er líklegt – þá hefði verið nánast ómögulegt að binda endi á umsóknarferlið.
Allt þetta veldur því að býsna seint er í rassinn gripið að fara að mótmæla hástöfum nú þegar á að loks að draga aðildarumsóknina til baka. Það hefur legið í loftinu í meira en fjögur ár að Ísland væri ekkert að fara inn í Evrópusambandið. Sjálfur hef ég margsinnis sett fram þá túlkun á atburðarásinni, mig minnir að ég hafi fyrst sagt þetta við franskan sjónvarpsmann sem kom hingað sumarið 2010. Hann tók viðtal við mig fyrir TF1 sjónvarpsstöðina og varð heldur hissa.
Hér segir ekkert um hvort skynsamlegt eða óskynsamlegt sé fyrir Ísland að ganga í ESB, en svona er hinn pólitíski veruleiki – og það verður að segja eins og er, að aðildarsinnar hafa hálfpartinn lifað í sjálfsblekkingu, látið eins og hlutunum væri öðruvísi farið, eins og aldrei myndi koma að reikningsskilum vegna umsóknar sem var byggð á svo veikum grunni.