Víst er að það mun skapa mikla ólgu innan Sjálfstæðisflokksins ef umsóknin um aðild að Evrópusambandinu verður endanlega dregin til baka.
Sagt er að von sé á þingsályktunartillögu þess efnis.
Samtökin Sjálfstæðir Evrópumenn boða til fundar nú í hádeginu, þar verður fundarstjóri Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins.
Benedikt Jóhannesson, formaður Sjálfstæðra Evrópumanna, orðar það svo á Facebook:
Ég minni á að Sjálfstæðir Evrópumenn halda fund í hádeginu í dag. Ég heyri að mörgum er misboðið að einhverjir þingmenn vilji svíkja loforð formanns og varaformanns Sjálfstæðisflokksins um að kjósa skuli um framhald viðræðna.
Í gær voru umræður um skýrslu Hagfræðistofnunar á Alþingi og þar lýsti Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, því yfir að hann væri andsnúinn því að umsóknin yrði dregin til baka. Hér má heyra ræðuna.
Vilhjálmur vísaði til þess að höfuðvígi andstöðunnar við ESB væri á Sauðárkróki, en þar hafði einmitt verið baráttufundur gegn ESB kvöldið áður:
Og ég stend með íslensku atvinnulífi og vinnandi fólki og vil hag þess sem bestan, ég vil að þeir Íslendingar, sem munu búa hér í landinu eftir minn dag, muni búa í góðu landi og þess vegna óska ég eftir því að þessum aðildarviðræðum verði lokið með því að það verði samið ellegar að samningar takist ekki, þá nær það ekki lengra, og þá verðum við bara að lappa upp á þennan samning sem er kallaður samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið, sem er náttúrlega bráðabirgðagjörð. En guð forði mér frá því sem var að gerast á Sauðárkróki í gær.