Heldur hefur hún farið lágt fréttin um að Ísland ætli í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið að gerast aðili að sam-evrópsku fjármálaeftirliti.
En svona er málið kynnt í norskum fjölmiðlum:
Að Siv Jensen, fjármálaráðherra úr Framfaraflokknum, ætli að leggja til að Noregur afsali sér hluta fullveldis síns með því að undirgangast evrópska eftirlitið.
Nákvæmlega eins er komið fyrir Íslandi, því í frétt fyrr í vikunni kom fram að Bjarni Benediktsson, fyrir Íslands hönd, hafi fallist á samkomulag um innleiddar verði hér reglur um sam-evrópskt fjármálaeftirlit. Bjarni sagði að þær yrðu lögfestar hér innan tíðar.
Í fréttinni sagði reyndar líka að þetta hefði í för með sér framsal fullveldis sem stjórnarskráin heimilaði ekki.
En er það svo? Margir hafa reyndar verið þeirrar skoðunar að EES samningurinn hafi brotið gegn stjórnarskránni nánast frá fyrstu tíð með sínu stórtæka fullveldisframsali.
Í tengslum við endurskoðun stjórnarskrárinnar hefur mikið verið rætt um nauðsyn þess að setja þar inn ný ákvæði um framsal fullveldis. Heitir andstæðingar ESB hafa verið á móti því, en þetta virðist vera nauðsynlegt ef menn vilja halda áfram með EES samninginn – og hefði sjálfsagt átt að gerast fyrir löngu.