Það hafa margir haft vitlausar, vondar og ógeðslegar skoðanir þegar þeir voru ungir. Sem betur fer rjátlast þær af sumum – en þó ekki öllum.
Nú er verði að endurbirta grein sem Geir Haarde skrifaði í skólablað í MR þegar hann var 17 ára. Þetta eru að sönnu ljót skrif – þarna eru skoðanir sem flestir telja fordæmanlegar. Ég held að sé alveg öruggt að Geir er ekki sömu skoðunar lengur.
Árni Páll Árnason rifjar upp Geir hafi talað um innflytjendamál þegar hann var forsætisráðherra – ég mundi líka eftir þessu þegar ég sá þessa skólablaðsgrein. Þetta er nokkuð gott hjá Árna, ekki síst niðurlagið:
Þegar Geir var í stjórnmálum gekk hann lengra en flestir aðrir stjórnmálamenn í að tala gegn sjónarmiðum útlendingahaturs. Mér er það sérstaklega minnisstætt þegar hann tók sjálfan sig sem dæmi um barn innflytjanda og mælti gegn skilyrðislausum kröfum um íslenskukunnáttu innflytjenda með þeim rökum að faðir hans, sem hér bjó um áratugaskeið og var landinu gegn borgari, hefði aldrei náð fullkomnum tökum á íslensku.
Það er því með ólíkindum að einhverjum detti í hug að útmála Geir sem óvildarmann innflytjenda á forsendum einhverra unglingsskrifa.
Almennt séð hef ég áhyggjur af því að umræða okkar um þjóðmál á samfélags- og vefmiðlum sé orðin gróðrarstía fyrir hræsnisfullar sakbendingar sjálfskipaðra farísea, sem gleðjast yfir að vera betri en þeir sem híað er á í það og það skiptið. Ég vona að okkur megi auðnast að snúa þeirri þróun við.
Það voru ýmsar fráleitar og ömurlegar skoðanir í gangi þegar ég var sirka 17 ára. Ég næstum áratug yngri en Geir, en við ólumst báðir upp í Kalda stríðinu.
Sjálfur játa ég að hafa ásamt nokkrum félögum mínum haft óheilbrigðan áhuga á þýskum hryðjuverkamönnum – sem betur fer gekk það yfir á fáum misserum. Sumir jafnaldrar mínir voru í samtökum eins og EIKml, KSML og Fylkingunni. Þar voru sérstakar fyrirmyndir fjöldamorðingjar eins og Maó Tse Tung, Stalín, Trotskí og fleiri slíkir.