Frétt á vef Reuters dregur ekki upp sérlega bjarta mynd af íslenska efnahagslífinu.
Þar segir að Ísland sé í frosti á erlendum fjármagnsmörkuðum meðan ríki eins og Írland og Portúgal séu aftur að komast þar í náðina.
Í fréttinni segir að ávöxtunarkrafa á fimm ára íslensk ríkisskuldabréf sé nú 6,4 prósent og hafi hækkað úr 4,1 prósenti síðan ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók við.
Til samanburðar er nefnt að ávöxtunarkrafa á írsk skuldabréf sé 1,8 prósent og þau portúgölsku 3,8 prósent.
Í greininni er fjallað um gjaldeyrishöftin og fé kröfuhafa bankanna. Rætt er við fulltrúa þeirra sem segjast ekki ná sambandi við íslensk stjórnvöld.