Viðbrögðin við hinum – að sönnu ófyndna og smekklausa – brandara Björns Braga um íslenska landsliðið og nasistana eru komin út fyrir allt sem skynsamlegt getur talist.
Fréttaflutningi af þessu stóra máli linnir ekki, menn fara hamförum dag eftir dag í fjölmiðlunum. Þetta er orðið mjög langdregið og úr samhengi við tilefnið.
Er farið að minna á þetta ágæta Monty Python atriði – þar sem er lýst ofsafengnum viðbrögðum við oggulitlu máli.
(Um leið má nefna að Python voru ekki alveg saklausir af nasistabröndurum, þeir voru samt fyndnari en hjá Birni.)
http://www.youtube.com/watch?v=AwZaqZaRe78
Það eru reyndar ákveðnar flækjur í þessu sem eru forvitnilegar – og koma Birni Braga ekki við, enda virðist sögukunnátta hans vera afar bágborin.
Eftir stríðið fengu Austurríkismenn þá stöðu að þeir hefðu orðið fyrir barðinu á innrás Þjóðverja. Þess vegna gengu þeir ekki í gegnum nasistahreinsun eins og Þjóðverjar. En í raun var ekkert fjær sanni en að Austurríkismenn hefðu verið fórnarlömb. Upp til hópa fögnuðu þeir Anschluss 12. mars 1938, en þá var Austurríki innlimað í þýska ríkið. Gyðingahatur var landlægt í Austurríki og þeir beittu gyðinga miklu harðræði allt frá fyrsta degi innlimunarinnar. Margir helstu glæpamenn úr röðum nasista komu frá Austurríki, foringinn sjálfur, Adolf Eichmann, Ernst Kaltenbrunner og Odilo Globocnik. Þetta kom upp með mjög vandræðalegum hætti á tíma Waldheim-málsins sem skók austurrískt samfélag á níunda ártugnum.
En þetta er bara neðanmálsgrein til fróðleiks.