Ég hef ekki tölu á hvað ég hef skrifað margar greinar í gegnum tíðina þar sem ég fjalla um brú yfir Skerjafjörð sem myndi tengja Reykjavík og Álftanes.
Mér hefur alltaf fundist þetta rakin hugmynd. Með þessu væri hægt að ferðast í hring um höfuðborgarsvæðið, það væri hægt að komast í Hafnarfjörð á stuttum tíma. Leiðin úr Vesturborginni til Keflavíkur myndi styttast verulega.
Ef brú yfir Skerjafjörð yrði að veruleika myndi opnast möguleiki á því að byggja hverfi á Álftanesi sem væru stutt frá miðborg Reykjavíkur.
Hrafn Gunnlaugsson tengdi á sínum tíma slíka brú við flugvöll sem hann vildi að yrði settur upp á Lönguskerjum, úti í Skerjafirði.
En látum flugvallarmálið liggja milli hluta.
Nú stingur þessari brúarhugmynd aftur upp í frétt um Halldór Halldórsson sem skipar fyrsta sætið hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík í komandi borgarstjórnarkosningum. Hún er sett fram í Morgunblaðinu í dag, eins og má sjá hér að neðan.
Eitt hefur reyndar breyst síðan ég var að skrifa um þetta mál. Álftanes er orðið hluti af Garðabæ. Álftanes fór beinlínis á hausinn – það var ekki annað úrkosta en að fá annað sveitarfélag til að taka það yfir. Ég hef velt því fyrir mér hvort það hafi ekki verið mistök hjá borgarstjórninni í Reykjavík að reyna ekki að ná Álftanesi undir Reykjavík.