Stóra lekamálið er farið að taka á sig einkennilegar myndir.
Fyrst fór það bara fram í DV, það var ekki fyrr en seint og um síðir að það fór að smitast út í aðra fjölmiðla.
Málið snýst um upplýsingar um hælisleitanda frá Nígeríu sem var lekið í fjölmiðla – að því er virðist úr innanríkisráðuneytinu.
Blaðamenn DV þráuðust við og nú er málið loks komið í hámæli.
Í dag brýst það út í miklum pirringi milli ritstjóra DV og aðstoðarmanns ráðherrans.
En manni skilst að von sé á skýringum ráðuneytisins eftir helgina – það er samkvæmt beiðni frá ríkissaksóknara sem nú er farinn að spyrja spurninga.
Einhvern veginn virðist þetta vera að þróast í þá átt sem stundum er með pólitísk vandræðamál – það er erfitt að greina hvort er verra, málið sjálft eða viðbrögðin við því. Þá getur magnast upp sú tilfinning að einhvers konar yfirhylming sé í gangi.