Í sjötta þætti Vesturfara förum við til borgarinnar Winnipeg. Þar var blómlegt samfélag Íslendinga með blaða- og bókaútgáfu, alls kyns verslunum, félögum og trúarhópum – en líka miklum og þrálátum deilum um ýmsa hluti.
Við segjum frá lífi Íslendinganna í svokölluðum Hreysabæ og í hverfinu Point Douglas. Meðal annars eru nefnd til sögunnar rithöfundurinn Laura Goodman Salversen sem náði miklum vinsældum og meistaranjósnarinn William Stevenson, en hann getur gert tilkall til að vera áhrifamesti Íslendingur allra tíma.
Við njótum leiðsagnar Stefáns Jónassonar, sem er prestur í söfnuði Únítara, og förum í kaffiboð til Jóhönnu Wilson, en segja má að hún sé eins konar doyenne í samfélagi Íslendinga í Winnipeg – hún hefur semsagt náð háum aldri og nýtur mikillar virðingar. Afi hennar var í fyrsta hópnum sem kom til nýja Íslands, en faðir hennar barðist í fyrri heimstyrjöld.
Í kaffiboðinu fáum við íslenskar veitingar og hittum margar Fjallkonur.