Merkilegt er að sjá stjórnmálaforingja streyma frá Englandi til Skotlands til að reyna að afstýra því að Skotar kjósi sjálfstæði í kosningunum í næstu viku. Mikillar taugaveiklunar verður vart – enda virðast kosningarnar ætla að verða meira spennandi en talið var.
Í sjálfu sér bera þeir hag Skotlands ekki sérstaklega fyrir brjósti, heldur óttast þeir að Bretland í núverandi mynd heyri sögunni til. Það myndi stórkoslega veikja stjórnina í London. Þá væri eiginlega ekki annað eftir af gamla heimsveldinu en England, Norður-Írland og Wales.
Íhaldsflokkurinn er nánast ekki til í Skotlandi hann er almennt fyrirlitinn þar, enda er kjörlendi hans á Suður-Englandi. Verkamannaflokkurinn hefur hins vegar verið sterkur í Skotlandi, sjálfstæðið gæti veikt mjög pólitíska stöðu hans.
En Skoski þjóðernisflokkurinn hefur höggvið mjög í raðir Verkamannaflokksins – og milli þessara flokka er mikil óvild sökum þess.
Nú er jafnvel talað um að kalla á Elísabetu drottningu til að redda málunum – til að tala um fyrir Skotum. Margt bendir þó til að þessi afskipti stjórnmálamanna frá London séu að hafa þveröfug áhrif. Cameron, Miliband og Clegg eru ekki vinsælir í Skotlandi.
Ég ætla samt að spá því að sjálfstæðið verði fellt. En sjálfstætt Skotland væri áhugavert. Skotar eiga ekki samleið með Englandi sem er að miklu leyti stjórnað af fjármagnsöflunum í City, ríki þar sem ójöfnuður fer sífellt vaxandi. Það er ekki skrítið að þeir skuli horfa til Norðurlandanna – og í raun væri gaman að geta fagnað Skotum í þann flokk.