Sumrin eru ekki sérlega löng á Íslandi, en þau hafa reyndar verið að lengjast með hnattrænni hlýnun. Fátt er meira óþolandi en þegar menn fara að tala um að komið sé haust þegar enn er sumar.
Sigurður Þór Guðjónsson er mikill áhugamaður um veður og tjáir sig oft skemmtilega um veðurefni. Hann skrifar á Facebook:
Það gerist á hverju ári að menn fari að tala um það á netinu að sumarið sé búið eftir verslunarmannahelgi. Og í ár voru raddir um það áður en júlí lauk að haust væri i loftinu! Það má svo alveg taka fram að síðasti dagur ágúst er að langtímameðaltali á landinu hlýrri en nokkur júnídagur fram að sólstöðum. Og ef við segjum að júní sé sumarmánuður er það ekki fyrr en um 10. september sem hitameðaltalið fer niður fyrir 1. júni. En auðvitað er þetta allt breytilegt eftir árum.
Sigurður vitnar í þessa frétt Ríkisútvarpsins þar sem Trausti Jónsson veðurfræðingur segir að það að halda því fram að sumarið sé búið eftir verslunarmannahelgi sé eins og að segja að „dagurinn sé búinn eftir kaffi“.