Hinn feiknarlega bragsnjalli Bjarki Karlsson hefur sett saman rímu um „Lúðvík Sverrisson“, þ.e. Luis Suarez. Þetta er án efa það besta sem hefur verið sagt um málið hér – og í gervallri heimspressunni. Þetta birtist á Facebook – ég tek mér það bessaleyfi að birta þessa kafla úr rímunni. Bjarki tekur fram, í rímunni sjálfri, að þetta sé stæling á Fjósarímu Þórðar á Strjúgi.
11. Boðið var í boltasveit
býsna snjallur þótti,
marga lék á, marga beit
marga dauðinn sótti.12. Ýmsir sögðu um þumba þann:
þar fer heimsins besti;
bara ef gæti hamið hann
hina slæmu lesti.13. Síðan reyndi Sverris bur
sína fíkn að hemja
í hart nær sjö ár hékk hann „þur“
„holdsins fýsn“ að temja.––––––
14. Knattleikni og klækjager
kraft og færni og heppni
þarf að hafa er haldið er
í heimsmeistarakeppni.15. Kostum þeim fór öllum á
Úrúgvæ til sóma
við andstæðingum Suarez sá
sigur- hafði -ljóma.16. En ekki mátti af‘onum
í örskotsstundu líta
Giorgio, graman rum
gekk í öxl að bíta17. Firðar blésu: fuss og svei!
Fésbók skalf af kliði.
Hetjur boltans hafa ei
haft svo vonda siði:– – – –
18. Hvergi sparði að spyrna í net
spilaði á ukulele,
aldrei fékk sér axlarket
inn á velli Pelé.19. Eusébio beittur var
beit frá sér – sem þekkt er
hallaðist þó hreint ei par
að Hannibali Lecter.20. Georg Best í búri sat,
þar Birkir og Cantona töfðu,
aldrei þó í middagsmat
mannaket þeir höfðu.21. Milli leikja fékkst við forn
fræði, drýgði grúsk, las
en aldrei sást í sára þorn
setja tennur Puskas.22. Virtist ýmsum þá sem Þór,
þrumuguðinn, æddi
er Maradona mikinn fór;
menn hann aldrei snæddi.23. Djarfmannlega Dino Zoff
dúndurskotin varði
Kunni að meta malakoff
mannát þó hann sparði.
Og ennfremur:
29. Hemmi Gunn var hress í lund
hafði gott sett tanna
þó hann setti aldrei und
í axlir varnarmanna.30. Ásgeir Sigurvinson vel
vann úr hverju færi,
aldrei beit þó, að ég tel,
axlir eða læri.31. Arnór G. og Eiður hans
allvel kunnu að refsa
værukærð hvers varnarmanns
– en voru ekki að glefsa.32. Löngum kunni Bjarni Ben
að bíta, slá og vega
nú sem fyrr það iðkar – en
ekki bókstaflega.33. Einar Kára eitt sinn reit
eyjabækur snjallar.
Guðjón Þórðar þennan beit
– en það var utan vallar!