Nokkuð er hún heillandi skoðun þingmannsins Helga Hrafns Gunnarssonar sem spyr hvers vegna við þurfum að hafa svo ægilega miklar reglur um þjóðfánann.
Jú, fáninn er tákn íslenska ríkisins, en hann er líka bara klæðisbútur í þremur litum.
Ég er mjög hallur undir frelsi og lýðræði og ég vil endilega að borin sé virðing fyrir fólki, hverrar þjóðar sem það er – og að við förum vel með náttúru landsins.
En það er ekki víst að þetta inniberi að ekki megi setja fánann á umbúðir, eða flagga á nóttinni eða nota hann sem stuttbuxur. Svo nokkuð sé nefnt.
Helgi Hrafn segir að sér þyki fáninn fallegur, sjálfur er ég ekki einu sinni viss um það. Ég er ekki viss um að litirnir séu nógu góðir – reyndar er vitað að blái liturinn í fánanum er mjög á reiki. Í raun var gamli hvítblái fáninn miklu fallegri – og langbesti fáninn er auðvitað flöttu þorskarnir.
Eða hvernig sæmræmist það nútímahugmyndum að hafa kross, trúartákn, í fána?
Helgi Hrafn skrifar um fánalögin:
En ég get ekki að því gert að finnast slíkar hefðir kjánalegar í landslögum. Ef þessi eða hin meðhöndlun fánans er svona ægilega mikilvæg, þá finnur fólk sig væntanlega sjálft knúið til þess að meðhöndla hann svona eða hinsegin. Að öðrum kosti hljótum við að komast að þeirri niðurstöðu að þessar hefðir hreinlega skipti ekki jafn miklu máli og menn vilja meina.
Jörundur hundadagakonungur lét gera fána með þremur flöttum þorskum, hann hefur ekki varðveist en gæti hafa litið svona út.