Furðuleg er sú vending í íslenska réttarkerfinu að bróðir Ólafs Ólafssonar hafi verið dómari í Aurum-málinu.
Ólafur var dæmdur í héraðsdómi fyrir aðild sína að Al-Thani málinu, en Jón Ásgeir Jóhannesson var sýknaður fyrir aðild að Aurum málinu.
Málin eru um margt hliðstæð, en í Aurum málinu var það atkvæði Sverris Ólafssonar sem réð úrslitum.
Mönnum virðist einfaldlega ekki hafa verið kunnugt um að Sverrir væri bróðir Ólafs – eða voru menn kannski ekkert að pæla í þessu.
Ummæli Sverris eftir að þetta varð uppvíst hafa vakið athygli. Hann sagði meðal annars um sérstakan saksóknara, og n.b. þetta er maður sem er nýbúinn að ljúka störfum í dómi og getur ekki falið andúð sína:
Mér finnst viðbrögð hans hæpin og mér finnst þetta bera vott um örvæntingarfullar og jafnvel óheiðarlegar aðgerðir og hann grípur til þeirra á erfiðum tímum þegar trúverðugleiki hans stofnunar er eiginlega í molum.
Lögmaðurinn Sveinn Andri Sveinsson skrifar á Facebook:
Það er algert einsdæmi að dómari í máli tjái sig með þessum hætti eins og meðdómarinn gerir hér. Hafi einhvern tíma verið vafi á óhlutdrægni þessa dómara, þá hefur hann sjálfur algerlega eytt öllum vafa; andúð hans í garð sérstaks saksóknara skín í gegn.
Nú er bara tvennt í stöðunni, komi til kasta Hæstaréttar: Sakfella ákærðu eða ómerkja alla málsmeðferð héraðsdóms. Meðdómandinn sá algerlega um það á eigin spýtur að veikja dóminn. Til þess þurfti ekki atbeina sérstaks saksóknara.
Verjendurnir geta ekki verið hressir.